Örsögur úr ódýrri íbúð: Mikki Refur

Það er partí og ég er að nálgast fötlun af drykkju. Einn bjór verður tveir sem verða níu og skyndilega man ég ekki hvað tungumál eru. Vinir mínir gufuðu upp fyrir löngu og fólkið í kringum mig er leiðinlegt. Falleg stelpa lítur á mig og svipurinn segir mér hversu fáránlega drukkinn og ógeðslegur ég er.

Við þessar aðstæður er aðeins eitt í stöðunni, drulla sér í bólið og kvíða djammviskubits morgundagsins. Ég kveð engan og legg af stað heim. Loftið er kyrrt og svalandi. Íslendingurinn í mér er alltaf jafn hissa þegar það er ekki rok eða í það minnsta gola. Ég tel mig muna í hvaða átt húsið mitt er, þótt ég sé ekki alveg viss.

Eftir fimm mínútna göngu rek ég augun í forljóta blokk sem mig minnir að sé nálægt heimili mínu. Ástæða óvissunnar er að flest öll hús á svæðinu eru eins og teikningarnar að þeim hafi verið ljósritaðar. Þessi bygging er kannski við hliðiná heimili mínu en gæti alveg eins verið í næsta hverfi. Þar að auki er blokkin ekki í gönguleiðinni minni. Til að breyta um stefnu þarf ég að viðurkenna fyrir sjálfum mér að hafa ekki ratað heim.

Báðar starfandi heilasellurnar hefja hörkurifrildi. Þær segja hvor aðra vera drukkna og hafa áttvísi á við höfuðlausa hænu. Sú sem kannast við blokkina sigrar, ég vel götu sem stefnir að henni og held göngunni áfram.

Annað hvert skref er til hliðar, sem lengir ferðalagið. Eftir þó nokkra göngu sé ég hræðilega sjón. Á miðjum veginum, á þessari fáförnu leið, er refur. Hann er steindauður, hefur augljóslega orðið fyrir eða líklegast undir bíl. Heilasellurnar kveðja, nú eru tilfinningarnar við stjórnvölin. Sterkasta tilfinningin er sorg, óstjórnaleg og yfirþyrmandi sorg yfir að hann Mikki muni aldrei aftur veiða dýr í almenningsgarðinum.

Ég tek hann upp, legg höfuð hans á öxlina á mér og klappa honum blíðlega á meðan ég flyt hann niður keimlíkar göturnar. Hvers konar skepna gat keyrt á þennan nýja vin minn?

Ég segi honum að hann hafi líklega átt langa ævi, eigi betra skilið og sé nú kominn í borgina eilífu þar sem hver einasta ruslatunna er full af hálfelduðu kjöti og allir kettir flýi þegar mótar fyrir rauðu skottinu á Mikka. Að maðurinn á bílnum hafi verið skepna, sem skildi ekki að refir ættu líka skilið virðingu. Ég lofa honum viðeigandi jarðarför.

Bíll keyrir framhjá, hægir á sér og stoppar aðeins fyrir framan mig. Vonandi verður mér hrósað fyrir þetta góðverk.

Bílstjórinn öskrar út um gluggan:

– HVER ANDSKOTINN ER AÐ ÞÉR?! ÞÚ HELDUR Á DAUÐUM REF!

Ég svara eins og frekur krakki:

– ÉG ÆTLA AÐ GRAFA HANN!

– ÞETTA ER DAUÐUR REFUR!     

– HANN Á BETRA SKILIÐ!

Bílstjórinn orgar úr hlátri þegar hann setur í gír og brunar í burtu. En gargið hafði þá aukaverkun að vekja nokkrar heilasellur.

Ein þeirra stýrir augljóslega ekki siðferði og spyr mig hvort það ætti ekki að nýta hræið í eitthvað. Hvernig ætli refir smakkist? Eða kannski væri hægt safna nokkrum og sauma feldina í pels. Til þess þyrfti ég að læra fatasaum en í núverandi ástandi hljómar það frekar einfalt.

Önnur heilasella minnir mig á að refir í stórborgum eru, smekklega orðað, viðbjóðslegir. Þetta er heilasellan sem stýrir almennri skynsemi, hún er ekki vön að vera með læti en henni hryllir réttilega við að ég sé að ganga heim með rebba í fanginu. Væntanlega er ég að safna að mér aragrúa sjúkdóma og lyktin er ekki geðsleg. Hún sannfærir mig um að láta þetta mál niður falla. Ég get samt ekki bara kastað Mikka frá mér eftir svona gott spjall, það væri rangt.

Ég finn álitlegt tré í almenningsgarði, tíni nokkur blóm og kem honum fyrir, dapur inn að beini. Vonandi finna aðrir refir hann og votta honum virðingu sína. Áður en ég kveð óska ég honum góðrar veiðar í borginni eilífu og bið hann að minnast mín þar á meðan hann japlar á nýveiddum andarungum.

Ég held áfram inn í nóttina og finn heimili mitt, sem var vissulega hjá blokkinni ljótu alveg eins og mig minnti. Þar bíður svefn og stórfurðulegt djammviskubit.

Nokkrum tímum seinna kemur væntanlega morgunfúll bæjarstarfsmaður og spyr sig hvers vegna það sé dauður refur undir tré í garðinum, með framloppurnar í kross, haldandi um lítinn blómakrans. Það er að segja ef krákurnar finna Mikka ekki fyrst.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Hvað er klukkan?

Seint um kvöld í milljónaborg. Ég er á heimleið með tónlist í eyrunum en heyri einhvern öskra á mig. Hann vill vita hvað klukkan er. Ég hundsa hann og eyk gönguhraðann. Hann kallar aftur, hrópin færast nær.

Hugur minn flýgur af stað. Nýlega gekk ránsbylgja um hverfið. Tveir gaurar sem fóru alltaf eins að. Þeir spurðu fólk úti á götu hvað klukkan var. Fórnarlambið dró fram símann, sem þeir ýmist gripu og hlupu með á brott eða hótuðu viðkomandi þar til tækið og veski var afhent. Ein stelpa var svo óheppin að vera í flegnum bol þegar þeir gripu hana, þeir lykluðu á henni bringuna, örið var hrikalegt. Ferðalangurinn lenti í þeim en náði að stinga sér inn í búð og beið eftir að þeir færu. Það er engin búð nálægt mér, en ég er ekki tilbúinn að afhenda neitt.

Ég sný mér við og reyni að virðast sultuslakur á meðan ég tek heyrnatólin af mér. Hjartað hamast, það er enginn annar sjáanlegur. Hann er bara einn og hann er lágvaxinn, sem gefur mér smá kjark. En ég man að þó byssuglæpir eru sjaldgæfir í London en hnífaglæpir eru faraldur. Já og hann er líka með þessa stóru vasa á jakkanum, hvað sem er gæti verið í þeim.

Adrenalín tekur yfir alla hugsun. Það er einhver fífldirfska í mér. Ef ég þarf að segja að ég hafi verið rændur, ætla ég að segjast hafa barið frá mér.

Við horfumst í augu, ég kreppi hægri hnefann og spenni bakvöðvana. Kannski mun hann hugsa: Ó nei, þessi er greinilega fær um að gera nokkrar upphífingar, það sést á fallega mótuðum Latsimus Dorsi-vöðvunum (sem gaurinn sér væntanlega í gegnum peysuna og jakkan) best að taka ekki upp hnífinn. Þetta er ekki gott plan, en skárra en ekkert. Eins og dýr á sléttunni reyni ég að gera mig stóran, stend þráðbeinn á meðan ég lyfti vinstri hendinni. Án þess að rjúfa augnsambandið les ég á úrið.

-Hún er næstum tólf, félagi.

Hann vegur mig og metur. Mér líður eins og ég sé að stara í augu rándýrs. Andartökin líða, löturhægt. Bringan á honum lyftist og hik kemur á hann. Ég geri mig ennþá breiðari, kreppi hinn hnefann og læt hendurnar standa aðeins út frá líkamanum. Innra með mér öskrar rödd á mig að hlaupa, það tekur á að hundsa hana. Sama hvað gerist, mun ég ekki rjúfa augnsambandið.

Hver einasti vöðvi er spenntur, ef hann stekkur á mig mun ég annaðhvort reka upp stríðsöskur eða snúa mér við og reyna að komast undan, hef ekki hugmynd um hvort það verður. 

– Takk. Óþarfi að vera svona hræddur, fáviti, segir hann og snýr sér við.

Hjartað tekur lokasprett. Þetta var fáránleg áhætta.

 Ég stend grafkyrr og bíð eftir að hann fari fyrir hornið. Um leið og hann hverfur úr augsýn hleyp ég heim eins hratt og ég fætur toga, þótt ferðin sé stutt er ég lafmóður þegar dyrnar lokast á eftir mér. Það er eins og losni um stíflu því óttinn margfaldast um leið og ég sest niður. Tilfinningarnar, sem voru bældar niður í hita augnabliksins, heimta að eftir þeim sé tekið. Það tekur á að ná aftur stjórn á andadrættinum og hendur skjálfa um stund.

Ég hringi í Spaðann, segi honum hvað hafi gerst og að ég þurfi bara að heyra vinalega rödd. Hann róar mig, hrósar mér fyrir viðbrögðin og segir mér að fara að sofa.

Eftir þetta ég lít ég betur í kringum mig að nóttu til og hætti alveg að stytta mér leið í gegnum óupplýsta garða. Á sama tíma finnst mér eins og ég væri aðeins öruggari með mig, ég lenti í hættu og brást vel við. Svoleiðis sjálfstraust er ekki hægt að kaupa, það verður bara til við að gera eitthvað hættulegt og ganga heill frá því.

Svo er líka mögulegt að gaurinn hafi í alvörunni viljað vita hvað klukkan væri og ekki skilið neitt í hvers vegna ég var svona tilbúinn í slagsmál.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Beðmál í bænum – Guð minn góður

Sjáðu fyrir þér ungan gaur, í meðallagi myndarlegan og skemmtilegan, nörd og íþróttafíkil. Hann hittir fólk, kynnist því og hefur gaman af. Reynir kannski full mikið að fá aðra til að hlægja en er með svo hvolpa orku sem fólk nýtur.

Sjáðu svo fyrir þér að í hvert sinn sem hann sjái stelpu sem honum finnst áhugaverð, gleymi hann hvernig eðlileg samskipti virka og bæti upp fyrir það með því að drekka burtu feimnina, vera með stæla og segja óviðeigandi brandara til að hljóma kúl. Hæ, ég heiti Ingimar, gaman að kynnast þér.

Ein af ástæðunum fyrir að mér finnst djamm jafn spennandi og raun ber vitni er að eftir þó nokkra bjóra get ég spjallað við spennandi stelpu án þess að fara í hnút. Ekki að ég sé feiminn dags daglega, þvert á móti. Það er bara ef ég er skotinn sem ég gleymi hvernig á að mynda setningar. Bakkus var þá til í að bjóða fram aðstoð sína, gegn vægu gjaldi að hans sögn.

Það er flöskudagur og við Spaðinn erum mættir í partí. Við þekkjum aðeins húsráðanda, ákváðum að mæta og erum í óðaönn að kynnast nýju fólki. Stemningin er lýsandi fyrir upphaf skólaárs. Allir á staðnum vilja ólmir eignast sem flesta nýja vini, þeir óöruggari í hópnum eru aðeins of vel klæddir og aðeins of ákafir í að fólk hlæi með sér. Á meðan virðist svala fólkið fljóta um í stemningunni og skemmtir sér fyrir vikið betur.

Þegar hlé verður á spjalli við Spaðann tek ég eftir stelpu, Skvísunni. Hún er svakalega sæt. Það sem meira er, hún heilsar mér og ég heilsa á móti. Þetta kemur ögn á óvart en svo man ég að ég er í glasi og þar með ekki feiminn. Takk Bakkus!

Hvað á ég að segja? Hún er fyrri til, spyr hvort silfurkrossinn minn sé merki um að ég sé trúaður. Svo er ekki, ég segi að hann hafi verið útskriftargjöf frá ömmu og snúist meira um fjölskyldutenginguna en Guð. Hún segir að það sé sætt, spyr mig svo hvað mér finnist um Guð, þetta samtal er óvænt í miðju leiklistarpartí.

Ég segist ekki vera viss með Guð. Hún spyr mig hvort ég sé til í að fara afsíðis ræða þetta nánar. Gæti þetta verið upphaf að ástarævintýri? Ætli samtalið fari úr krossi í koss og hver veit hvert svo?

Við Skvísan læsum okkur inni í stórum skáp og hún opnar sig um eigin trú og hvað henni finnist skrýtið að vera í háskóla þar sem enginn deilir henni. Bakkus hvíslar að mér að ljúga að ég skilji til að auka líkurnar á að þetta leiði að einhverju líkamlegu, ég ákveð að hlusta ekki, hann kallar mig aumingja.

Ég spyr hvað hún meini og hún lýsir því að hún hafi verið í söfnuði alla ævi, ekki þekkt neinn sem deildi ekki trúnni. Nú er hún í háskóla þar sem flestir eru ekki bara trúlausir heldur sjái ekki hverju þau missa af með því að þekkja ekki Guð. Samtalið verður sífellt flóknara, við ræðum eðli guðs og ástar hans á mannkyninu. Satt best að segja á ég ekki marga (neina) heittrúaða vini og þetta er forvitnileg innsýn í heim fólks sem ég er almennt ósammála og hef mikla fordóma gagnvart. Ekki það sem ég sá fyrir mér, en bestu hlutirnir eru það sjaldnast.

Að lokum fáum við nóg af þessu spjalli og förum út. Eins og sönnum vini sæmir kemur Spaðinn samstundis auga á mig. Hann fær stoltglampa í augun og brosir félaga-brosinu. Þetta er háþróuð líkamstjáning sem félagar beita þegar þeir halda að einhver afrek í kvennamálum hafi unnist. Fyrri félaginn brosir þá út í annað munnvikið, augun lokast um helming og hann lyftir höfðinu hægt til að sýna virðingu. Ef brosið er verðskuldað svarar seinni félaginn í sömu mynt en brosir aðeins breiðar og lyftir höfðinu örlítið hærra.

Ég hristi hins vegar höfuðið. Hann þarf ekki að segja orð, tjáir með púkalegu glotti: Gengur betur næst.

Við Skvísan spjöllum reglulega eftir þetta en úr því verður aldrei meira en léttvæg vinátta, hugsanlega vegna þess að Bakkus rukkaði fyrir þjónustu sína með því að láta mig gleyma því hvað hún hét. Tvisvar.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Svart og hvítt

– Getur ekki skaðað, segi ég. 

Spaðinn glottir eyrnanna á milli og réttir mér jónuna. Þetta er fyrsta skipti sem ég prófa grænt. Ef maður ætlar að fara út í svona vitleysu er alveg eins gott að gera það með góðum vini, gaur sem maður treystir.

Ég dreg djúpt andann. Staðráðinn í að vera svalur reyni ég að halda reyknum inni jafn lengi og Spaðinn. Reyknum líst ekki á það, hann brýtur sér leið út og veldur hrikalegu hóstakasti. Spaðinn hlær að mér og sýnir mér aftur. Ég endurtek leikinn, er í þetta sinn hógværari og anda frá mér tímalega.

Víman er góð, allt öðruvísi en áhrif áfengis. Slakandi. Við látum jónuna ganga á milli okkar. Hann er ekki stórreykingarmaður en í samanburði við mig er hann Snoop Dogg reyki klæddur. Hann tekur inn þrefalt magn af reyk og finnur fyrir svona helmingi áhrifanna. Innan skamms erum við orðnir ákaflega afslappaðir og ég skil loksins af hverju mönnum finnst Family Guy fyndnir þættir.

Spaðinn er einn besti vinur minn, þótt við séum eins og svart og hvítt. Ég segi það ekki bara að því að ég lít út eins og óskabarn þriðja ríkisins og hann er svartur, með rætur að rekja til karabíska hafsins. Hann er töffari í húð og hár, ég meiri bókanörd. Hann er Lundúnagaur, nærist á stórborgarorkunni og ég er Hafnfirðingur, finnst asinn í miðborg Lundúna óþægilegur. Hann þarf varla að smella fingri til að komast á séns með stelpu, ég … tölum um það seinna.

Við kynntumst á fyrsta degi í náminu og höfum verið félagar síðan. Við getum rætt ýmislegt sem enginn annar í bekknum hefur áhuga á. Heilu kvöldstundirnar fara í pælingar um hverjir eru fimm bestu rappararnir eða hvaða Vin Diesel-mynd sé flottasta blandan af meðalgóðum leik og frábærum hasar. Það er minna um slíkt með hinum strákunum í bekknum, þeir telja flestir söngleik og rauðvín vera fullkomna kvöldstund.

Líklega var þetta örlítið of mikill reykur, svona í fyrsta sinn. Það að opna munninn er eins og að vera ekki hræddur þegar LÍN hefur óvænt samband, það er að segja ómögulegt. Sem er fínt, aldrei þessu vant er ég frábær í að hlusta og Spaðinn þarf að pústa.

Spaðinn og hinir svörtu krakkarnir í skólanum passa ekki beint inn í Sidcup. Hverfið var lengi þekkt sem höfuðvígi enskra þjóðernissinna. Margir á svæðinu vilja meina að England hafi toppað um það bil fimm mínútum áður en fyrstu innflytjendurnir komu til eyjarinnar. Svona gaurar sem kusu með Brexit af slæmu ástæðunum og átta sig ekki alveg á því af hverju nýlenduþjóðirnar vildu sleppa undan bresku krúnunni. Er ég að vinna með ósanngjarna steríótýpu og er það kaldhæðnislegt vegna þess að ég er að gagnrýna þessa menn fyrir að vera fordómafullir? Já.

En ég er útlendingur, ætti ég ekki að vera með allavega eina sögu af svona mönnum að hrópa á mig að drulla mér úr landi? Neibb, ég er hvítur hvítur þannig að ég verð aldrei fyrir barðinu á neinu, en hann lendir reglulega í því að fólk skrúfar niður rúður á bílum og hrópar á eftir honum „FOKK OFF NIGGER“. Sú staðreynd að hann er tveir metrar á hæð útskýrir kannski af hverju flestir gera það bara á ferð.

Það sagði mér enginn frá þessum áhrifum grass, hugsa ég á meðan ég virði fyrir mér dansandi stjörnur. Staður og stund hverfur, þetta er fallegt mynstur. Ætli það sé gluggi inn í eilífðina, handahófskennd mynstur sem birtist til að sýna mér heim sem ég get aðeins heimsótt í huganum.

Alveg rétt, það er verið að tala við mig. 

Ég einbeiti mér að því sem Spaðinn er að segja. Hann útskýrir að hann hafi verið í myndatöku fyrr um daginn og ljósmyndarinn hafi spurt hvaða glæpamynd væri uppáhaldið hans og hvert væri draumahlutverkið hans í slíkri. Af hverju ætti viðkomandi að halda að hann elski glæpamyndir? Þú mátt giska þrisvar.

Málið með svona rasisma er að þegar hann birtist er hann bæði lúmskari og óþægilegri en fúkyrði frá fíflum. Spaðinn segir að gaurinn hafi ekki einu sinni meint þetta illa. En að ljósmyndarinn hafi bara gert ráð fyrir að Spaðinn vildi leika í glæpamyndum, því hann væri svartur, það var eins og kjaftshögg.

Ég skildi smá, bara agnarkorn, af þessari tilfinningu seinna. Áður en ég fór heim frá London bjó ég um tíma í hverfi þar sem ég var einn af sirka átta hvítum. Þegar þú lítur í kringum þig og sérð engan þinn líka ferðu sjálfkrafa í vörn. Það er bara óþægilegt, því miður. Eru þetta jafnar tilfinningar, nei. Þetta er eins og munurinn á pilsner og vodka og ég var að drekka pilsnerinn. En þetta gaf mér meiri samkennd með félaga mínum.

– Ertu með einhverja skoðun á þessu, segir Spaðinn að lokum. Mér að óvörum er munnurinn á mér farinn að virka. Ég þarf að velja orðin varlega, hér er tækifæri til að segja eitthvað viturt og kannski hjálpa vini. Ég hugsa vandlega um stöðuna, fer yfir hana í huganum og reyni að finna einhvern vinkil sem mun láta félaga mínum líða betur, án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr tilfinningum hans.  Ég segi:

– Á ég að vera að sjá stjörnumynstur dansa fyrir augunum á mér?

 Spaðinn springur úr hlátri.

– Æ já, segir hann, ég gleymdi að segja þér. Það eru kristalar í þessu sem geta valdið mildum ofskynjunum. Steingleymdi að segja þér það.  Alveg óvart.

Við hlæjum saman í myrkrinu og raunir dagsins hverfa inn í reyk og hlátur. 

Örsögur úr ódýrri íbúð: Gott kast

– Einhver lokaráð? spurði ég Forsetann kvöldið áður en ég flutti til London.

– Já, svaraði hann brosandi, ljúgðu alveg eins og þú getur!

Daginn eftir kem ég til London og viku seinna vorum við Engillinn byrjuð í leiklistarnámi. Líf okkar tveggja hefur rímað árum saman, kynntumst í MH og endum hvað eftir annað á svipuðum slóðum. Hún er frábær söngkona og enn þá betri leikkona. Þegar við tókum fyrstu leikhúsæfinguna með nýja bekknum sagði kennarinn um hana:

– Þetta var eins og að horfa á engil leika.

Þennan morgun sitjum við Engillinn og sötrum skólakaffið, sem er fínt ef þú ert slæmu vanur og hefur aldrei fengið alvöru kaffi. Það eru ekki nema nokkrar vikur liðnar af skólanum og enn þá smá spenna í loftinu í hvert sinn sem við hittumst. Allir mjög meðvitaðir um að við munum eyða næstu þrem árum í nánu samstarfi.

Ég þarf að skreppa afsíðis en viskuorð Forsetans bergmála í eyrunum á mér. Ég segi við Engilinn að ljúga einhverju að samnemendum okkar meðan ég er í burtu. Hún brosir sínu breiðasta, í henni syngur vitleysingur og hans við hlið er lítill hrekkjalómur.

Þegar ég sný aftur af salerninu stekkur einn samnemandi upp úr sætinu, grípur í mig og spyr með stjörnur í augunum:

– Ertu mörgæsakastari?!

– Vissuð þið það ekki? svara ég og þarf að taka á honum stóra mínum til að brosa ekki.

– En eru þær ekki þungar?

– Nei ekki svo. Þetta er svipað og ungbarn. Fuglar eru með hol bein svo þeir eru léttari en þeir líta út fyrir.

Fyrsta lygalexía: Göbbels hafði rétt fyrir sér um eitt, ef lygin er nógu fáránleg mun fólk trúa henni.

Ekki spyrja mig hvernig mér datt svarið hug, kjafturinn á mér vinnur oftast hraðar en heilinn. Sjálfur vil ég vita úr hvaða ímyndaða heimi Engillinn sótti mörgæsakast, það er örugglega skemmtilegur staður.

Bekkurinn er enn þá að kynnast og margir eru meðvitaðir um að sýna sínar bestu hliðar, ekki vera að fíflast of mikið. Þau eru sem sagt ekki búin að uppgötva hversu miklir vitleysingar Íslendingarnir eru.

Þau láta spurningunum rigna yfir okkur. Ég útskýri að á Þorláksmessu sé Laugarvegurinn frystur og múgur og margmenni komi til að horfa á. Þegar miðnætti nálgast koma mörgæsakastararnir sér fyrir og reyna að fleygja fiðurfénu sem lengst. Kúnstin sé að láta þær skoppa nokkrum sinnum og ef hraðinn er nægur renna þær svo tugi metra. Tækninni svipi til þess að fleyta kerlingar. Við segjum að sportið hafi orðið til á Vestfjörðum og seinna orðið hluti af jólahefðinni.

Engillinn skýtur inn að ef mörgæsin komi ekki hlaupandi til baka sé kastið ógilt. Þessi regla sé til að sanna að mörgæsin sé að skemmta sér, menn sem geti ekki fengið mörgæsina til baka eigi ekki heima í íþróttinni.

Hún segir að ég hafi verið langbestur í mínum árgangi sem ég mótmæli. Ég segi þeim að ég hafi aldrei verið bestur en þótt efnilegur og alltaf verið í topp fimm í mínum aldursflokki. Ég segist hafa hætt þegar hann Maggi minn mörgæs hafi farið upp í sveit. Það hafi bara engin önnur gæs staðist samanburð við hann og kastgleðin hvarf með honum.

Lygalexía II: Ef þú segir eitthvað sem hljómar hógvært eða jafnvel vandræðalegt er líklegra að fólk trúi þér.

Þau halda áfram að spyrja og rétt áður en bjallan hringir segir einn samnemandinn við mig.

            – Vá, ég vissi ekki að svona kúl íþrótt væri til.

Við höldum í tíma og þegar ég kem inn lítur kennarinn beint á mig og ranghvolfir augunum. Samnemendurnir reyna hvað þau geta til að sannfæra hana en hún hefur kennt fleiri Íslendingum með þennan húmor og kaupir þetta ekki fyrir fimmaur. Áhrifa Forsetans gætir víða.

Að lokum játum við lygina og hin sjá spaugilegu hliðina á þessu. Þau ganga svo í það næstu vikur að hefna sín rækilega. Meðal annars sannfærði velskur samnemandi mig um að jakkinn hans væri úr kindagæru, sem er næstum trúverðugt, en svo sagðist hann hafa sjálfur húðflétt dýrið í manndómsvígslu. Ég kokgleypti þetta, því ég er kjáni með fordóma og hann þreyttist seint á að minna mig á það.

Lygalexía III: Ef þú ætlar að stunda svona grín er eins gott að þú takir því vel þegar þú ert sjálfur tekinn, annars ertu fífl.

Lygin um mörgæsakastarann lifði góðu lífi en var að lokum lögð í helgan stein. Við Engillinn höfðum verið í partíi og nýr vinur kom með okkur heim í lokabjór. Þegar talið barst að mörgæsunum stóð ég skyndilega upp og öskraði, með tárin í augunum, að ég saknaði Magga og vildi ekki tala um hann. Svo strunsaði ég út og skellti á eftir mér. Við steingleymdum að leiðrétta lygina og mörgum vikum seinna heyrðum við hann segja vini okkar að minnast ekki á mörgæsir við mig þegar ég væri fullur. Sem er reyndar ágætis regla.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Íþróttaaðstaða

Dyravörðurinn hvarf á braut og nokkrum vikum síðar kom Rósin til sögunnar. Þær Töffarinn byrjuðu saman daginn sem þær kynntust og Rósin flutti inn skömmu síðar.  Full skömmu síðar. Þær voru báðar hvatvísar og hressar, sem færði meira líf í íbúðina. Við Lávarðurinn erum báðir meira fyrir góð bók, þær voru alltaf að leita að næsta ævintýri.

 Rósin leit út eins og unglingur, þó að við værum jafnaldrar. Þegar maður kynntist henni áttaði maður sig á að hún hafði ekki átt auðvelda ævi. Ekki leið á löngu þangað til Rósin var farin að vinna fyrir sér með að strippa, ef eitthvað var hún vinsælli á súlunni en Töffarinn. Töffarinn útskýrði það fyrir mér.

– Rósin er saklaus í útliti, sagði hún, sumir perrar elska það. Sérstaklega þegar hún klæðir sig eins og skólastelpa.

Þær kölluðu viðskiptavini aldrei annað en perra, skiljanlega. Okkur fannst fínt að hafa Rósina á heimilinu, en það var þegjandi samkomulag um að við myndum segja leigusalanum að hún væri að gista í nokkrar nætur ef hann tæki eftir henni. Hann hefði seint fúlsað við að rukka einn leigjanda í viðbót. Þar að auki höfðum við rökstuddan grun um að viðhorf hans til samkynhneigðar væri, kurteislega orðað, gamaldags.

Áhugaverður karl. Leigan var borguð mánaðarlega í ómerktan póstkassa, í ómerktu umslagi. Hann var alltaf á leiðinni að laga litlu gallana á húsinu, eins og bilaða lásinn á stigaganginum og myglublettina í stofunni. Svo var hann ekki mikið fyrir að fela andúð sína á útlendingum. Reyndar þýddi „útlendingur“ fyrir honum bara fólk sem var ekki hvítt, þannig að ég var í lagi. Ef minnst var á nálæg innflytjendahverfi varð hann ákaflega sorgmæddur á svipinn og sagði út í loftið:

– Já. Sá staður. Ofboðslega mikið brúnt þar núna.

Nóg um hann. Rósin og Töffarinn voru eins og krakkar á jólum þegar þær uppgötvuðu eitthvað sem þeim fannst sniðugt, oftast á netinu. Til dæmis heimsendingu Dominos. Eftir að þær föttuðu að hægt væri að panta pizzur á netinu voru tvennutilboð send heim til okkar tvisvar í viku. Þótt við byggjum í næsta húsi við pizzastaðinn og heimsending kostaði auka.

Mánuðum saman voru tvennutilboð Dominos það eina sem þær borðuðu, skömmtuðu sér bara pizzunum og létu þær duga dögum saman. Eitt skipti benti ég þeim á að flatbaka væri kannski ekki það hollasta í öll mál og Töffarinn svaraði

– Við erum alveg meðvitaðar um að halda línunum í lagi, vinnum fyrir okkur með þeim. Við sveltum okkur fyrir utan þessar pizzur.

Þetta fannst henni fullkomlega sjálfsagt og stórfurðulegt að mig hryllti við svarinu. Svo voru það stærri hlutir.

– Ingimar, hvernig þætti þér að hafa súlu í stofunni? spurði Töffarinn mig einn daginn. Þær höfðu verið að vafra á netinu og fundið heimsendingu á súlum, ætlaðar fyrir fólk sem æfir súludans.

– Súlu? Meinarðu strippsúlu? svara ég og þykist vera djúpt hugsi.

– Já, svo við getum æft okkur heima og svoleiðis. Svo er súludans frábær líkamsrækt, þú ættir að prófa.

Ég fer yfir kosti og galla þess að tveir stripparar séu að nota súlu í stofunni til að æfa sig. Ég er fljótur að ákveða að kostirnir (til dæmis að tveir stripparar æfi súludans í stofunni) vegi þyngra en gallarnir (sem væru væntanlega að ég kæmi ekki miklu í verk meðan á æfingum stóð).

– Já já, það er svo sem ekkert mál. Kannski ég prófi, svara ég og geri mitt allra besta til að fela glottið, sem misheppnast gjörsamlega. Ég er bara ekki nógu góður leikari.

Næstu daga spyrja þær á hverjum einasta degi hvað ætli sé langt í að súlan komi og eru hundfúlar þegar ljóst er að biðin lengist um að minnsta kosti einn dag. Loksins berst tölvupóstur um að pakkinn verði afhentur seinna um daginn.  Þegar það er bankað hrópa þær af gleði og ryðja næstum sendlinum um koll þegar þær rífa til sín pakkann.

Ég átti einhvern veginn von á að súlan kæmi í  löngum og mjóum pakka. Þvert á móti er kassinn flatur og ferhyrndur, kannski fjörutíu sentímetra langur og breiður. Þær rífa hann í tætlur og í ljós kemur þungur grunnflötur ásamt nokkrum holum stálrörum sem hægt er að smella saman.

Þær festa fyrsta rörið í grunnflötinn og ég glotti. Næstu tvö fylgja á eftir en eitthvað er klárlega að. Þegar það næsta er komið á sinn stað er bara eitt eftir. Þær eru ekki lengur spenntar. Stálsúlan er næstum fullkláruð og það fer ekkert á milli mála hvað er að fara að gerast. Töffarinn þarf að standa uppi á stól til að koma síðasta rörinu í.

Þær stíga til baka, setjast báðar á gólfið og vonbrigðin eru algjör. Enginn segir neitt. Þær eru á svipinn eins og barn sem átti von á Playstation í jólagjöf en fékk peysu, sem passar ekki einu sinni.

Frá toppi súlurnar og upp í loft er breitt bil. Ef einhver grípur í hana og sveiflar sér mun viðkomandi enda með andlitið inni í vegg og súlu ofan á sér. Pakkningarnar eru rifnar í frumeindir en það er ekkert auka rör. 

Þær eyddu sem sagt nokkur hundruð pundum í súlu og pældu ekkert í hvort hún passaði í stofuna. Mér tekst að fela pirringinn, leiklistarnámið farið að skila einhverju.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Forsetinn og Ferðalangur

Allir eru að leita að ástinni eða svo segir klisjan. Sumir finna hana með æskuvini, aðrir finna hana í háskóla eða bara á djamminu. Síðustu vikur hefur félagi minn, Ferðalangurinn, gist hjá mér. Hann er í barþjónaskóla og er búinn að finna ástina, nema að það er einn hængur á. Ástin býr í nokkur þúsund kílómetra fjarlægð, í Lissabon.

Það er erfitt að lýsa honum. Hann er vinnuþjarkur, fer í allt sem hann tekur sér fyrir hendur af metnaði og dugnaði (eða vægri vinnufíkn, þú mátt velja). Mikilvægari er eilíf leit hans að góðu gríni. Heima hjá honum er stór innrömmuð ljósmynd sem átti að vera stríðin afmælisgjöf. Myndin er af honum sótölvuðum í heitapotti, skælbrosandi, klæddum í hvítt bikiní.

Flestir hefðu hlegið vandræðalega og hent myndinni daginn eftir. Hann tók gjöfinni ekki bara fagnandi, heldur hengdi hana upp á áberandi stað í stofunni. Hann kveikti eitt sinn í vindli með brennandi fimmþúsundkalli, á meðan hann var fátækur námsmaður, bara til að prófa það, svo tvö dæmi séu tekin.

Hann stundar barþjónanámið með sama krafti og allt sem hann tekur sér fyrir hendur. Sem er kannski ekki sniðugt því að á námsskránni er að klára alla drykki sem þeir blanda í lok dags. Einnig í byrjun dagsins og um miðjan dag. Líka á milli tíma og ef einhver er seinn eða ef einhver var á réttum tíma eða þegar ef einhver mætir snemma. Fyrstu vikuna var sjúklega fyndið að sjá hann skríða heim um kvöldmatarleytið með meiri vínanda en blóð í æðakerfinu. Nú þegar þrjár vikur eru liðnar er hann nánast aumkunarverður af þreytu. Mér skilst að lifrin í honum sé búin að senda stéttarfélaginu kvörtun.

Við Ferðalangurinn sitjum í stofunni, hann er niðursokkinn í spjall við kæró á netinu. Netsambandið er svo lélegt að myndbandssamtal er ómögulegt, þau láta textaspjall duga . Samtalið er daglegur viðburður á meðan þau er aðskilin af fjórtán tíma lestarferð. Ég ætti að kalla þetta rómantískt en er pínu pirraður yfir að vinur minn hafi hvorki tíma né orku til að grallarast með mér.

Það er bankað.

Frændi minn, Forsetinn, er óvænt mættur með góðan hóp. Hann er í nokkurra daga heimsókn í London og tók daginn snemma með vinum sínum. Þau voru öll í skólanum á undan mér. Í hópi stuðbolta er Forsetinn sá mesti, allir eru hressir og stemningin ekki snakk, sjónvarp og snemma að sofa.

Við Forsetinn förum rakleiðis inn í eldhús og vinir hans hefja söng í stofunni. Hann verður fyrir vonbrigðum með ísskápinn, það eina sem er til er Malibu og mjólk. Hann minnir mig á mikilvægi þess að eiga alltaf varabjór, ég lofa að gera betur næst. Malibu og mjólk verður víst að vera drykkur kvöldsins. Veistu, það er betri blanda en þú heldur.

Allt stefnir í skemmtilegt kvöld. Gallinn er að eftir þriggja vikna stífa drykkju er partí um það bil versta hugmynd sem Ferðalangurinn hefur heyrt. En hann vill ekki vera leiðinlegur svo hann situr áfram í stofunni og þykist hafa áhuga á því sem er í gangi.

Forsetinn spyr Ferðalanginn hvað hann sé að gera með tölvu í miðju partíi, Ferðalangurinn segist vera að spjalla við frúna og sé alveg að fara að sofa. Glampi kviknar í augum Forsetans. 

– Ferðalangur, segir hann, ef ég má skrifa fimm setningar í spjallið og þú stoppar mig ekki skal ég kaupa handa þér bjórkassa. Ef þú heldur ekki út fimm setningar þarftu bara að kaupa einn bjór handa mér.

Það lifnar yfir Ferðalangum. Örlítið bros gerir vart við sig á meðan hann vegur þetta og metur. Gaurinn montar sig af því að gera hvað sem er fyrir gott grín. Svo ekki sé talað um að það er heill bjórkassi í boði. Hann kynnti mig fyrir frasanum: Slæm ákvörðun er góð saga.

En hann þekkir ekki húmorinn hjá Forsetanum. Hvað er svo sem það versta sem getur gerst? Að Forsetinn skrifi eitthvað klúrt og Ferðalangurinn segi kæró að einhver fáviti hafi komist í tölvuna hans? Varla mun þessi nýi vinur geta það sem engum hefur tekist, að ganga fram af Ferðalangnum?

Hann veit líka að ef hann tekur þessu ekki verður honum strítt fyrir það næstu mánuði. Eftir smástund segir Ferðalangurinn einfaldlega.

– Samþykkt.

Maður með keppnisskap og hrekkjalómur, þetta er gullin blanda. Forsetinn tekur fartölvuna, þögn slær á stofuna. Hann tekur sér langa stund til að velja fyrstu orðin. Ég halla mér aftur í sófanum.

Fyrsta setning: Það er svolítið sem ég þarf að játa.

Ferðalangurinn byrjar strax að iða. Hún svarar eftir óvenjulanga bið.

Kæró: Hvað ertu að tala um?

Önnur setning: Ég er búin að hugsa um okkur síðustu daga.

Kæró: Ef þetta er eitthvað grín er það ekki fyndið!

Ég er henni hjartanlega ósammála.

Þriðja setning: Ég er búinn að vera að uppgötva ákveðnar tilfinningar gagnvart ákveðinni manneskju.

Kæró: HVAÐ ERTU AÐ SEGJA?!

Forsetinn er að fá bakþanka. Hann elskar gott grín en vill ekki vera vondur. Hann hefur augljóslega áhyggjur af því að vera að fara yfir strikið.

Það má lesa innra stríð Ferðalangsins af andlitinu á honum. Það er eldrautt og þakið áhyggjuhrukkum. Hann vill alls ekki tapa veðmáli og alls, alls ekki játa sig sigraðan, en hefur áhyggjur af því sem er í gangi. Frír bjór og gott grín eða framtíð sambandsins? Hvort verður yfirsterkara, ég er að ærast úr spennu.

Fjórða setning: Síðustu vikur höfum við Ingimar eytt miklum tíma saman …

Þrípunkturinn gerir útslagið. Ferðalangurinn stekkur upp og segir að Forsetinn sé búinn að vinna veðmálið. Við springum úr hlátri. Hann rífur til sín tölvuna og forsetanum er létt. Ætli hann hefði getað skrifað næstu setningu. Hvernig hefði hann náð að toppa einfalda fegurð þeirrar síðustu. Frá ákveðnu sjónarhorni var hún listræn, hann leyfði hugsuninni að fljóta út og hver einasti maður kláraði hana á sinn hátt.

Þegar við náum andanum á ný tek ég eftir að Ferðalangurinn er ekki að skrifa neitt. Svo er hann ekki farinn að brosa, óvenjulegt. Hann ætti að vera búinn að biðja Kæró afsökunar og byrjaður að blóta því að þurfa að splæsa bjór á Forsetann. Í stað þess situr hann, svo náfölur að ljósið af tölvunni endurvarpast af andlitinu, og hóstar upp:

            – Netið er hrunið.

Það er ljótt, en við springum aftur úr hlátri. Netið er gjörsamlega farið, jafnt á tölvum og símum.  Tímasetningin er mögnuð, í fyrsta sinn er ég ekki brjálaður yfir því að símafyrirtækið skuli sameina þjónustulund einokunarkaupmanns við metnað gjaldkera hjá slæmum sýslumanni.

Ferðalangurinn dregur andann djúpt nokkrum sinnum, horfir á okkur með skelfingu í augunum. Þetta er hætt að vera fyndið. Forsetinn biður hann afsökunar og þeir fara saman í að reyna að laga netið.

 Við erum allir með inneignarkerfi á símunum okkar, svo það er ekki einu sinni í boði að hringja til Lissabon, enginn okkar er með nóg á kortinu. Þeir rífa allt úr sambandi og tengja aftur, þegar það virkar ekki endurtaka þeir leikinn og svo aftur og aftur og aftur. Ég stoppa þá ekki, en mig grunar að það eina sem dugar sé að bíða og kannski biðja til guðanna Google og Facebook.

Eftir næstum klukkutíma hrekkur kerfið aftur í gang, væntanlega búið að taka sinn samningsbundna kaffitíma. Ferðalangurinn segir milli samanbitinna tanna að hann muni hlæja að þessu þegar hann er búinn að ná í Kæró og biðja um fyrirgefningu, nokkur hundruð sinnum. Það stendur hann við og sambandið lifði þetta af, en ég veit hins vegar ekki til þess að Ferðalangurinn hafi nokkurn tímann borgað bjórinn.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Upphífingar

– Ingimar, ég er að fara á deit, er þér ekki sama þótt við komum hingað ef vel gengur? spyr Töffarinn mig.

– Ekkert mál, svara ég og tek eftir því að hún stendur yfir mér og það sem meira er, hún er fullklædd.

Það kann að vera augljóst, en fæstir stripparar eru spéhræddir.  Dagsdaglega valsar hún um íbúðina á nærfötunum einum klæða. Hún hefur ekki minnsta áhuga á mér en skemmtir sér við að sjá mig reyna að halda andlitinu þegar hún kemur inn í stofu í nánast engu. Hún er reyndar farin að kvarta yfir að ég sé hættur að líta upp úr tölvunni þegar hún kemur inn í stofu. Sem er rangt hjá henni, ég er bara orðinn miklu lúmskari. 

Þú þarft að vera harður til að vinna fyrir þér sem strippari. Töffarinn er fremur stutt og nett, með sítt dökkt hár. Allt of margir, sérstaklega miðaldra viðskiptavinir, gera þau mistök að halda að hún sé ekkert nema útlitið. Hún á það til að leika með slíka, þangað til viðkomandi segir eitthvað rangt eða vanvirðir hana. Þá rífur hún þá í tætlur með eitruðum athugasemdum.

Fötin þetta kvöld eru ákveðin vísbending um fyrirætlanir hennar. Tælandi er ekki slæmt orð: þröngar leðurbuxur, enn þrengri rauður hlýrabolur og háhælaðir skór sem lofa ökklabroti ef hún misstígur sig.

Hún spyr hvort ég sé með eitthvað á dagskrá, ég bendi á rommflösku og segi að uppistand á Youtube sé fínasta föstudagskvöld, sérstaklega fyrst Lávarðurinn sé hjá kærastanum. Er þetta ekki það sem fólk sér fyrir sér í listnámi: eins manns kojufyllerí og tölvugláp á meðan vinir manns eru á stefnumótum?

Hún fer og kemur aftur klukkutíma síðar með Dyravörðinn í eftirdragi. Dyravörðurinn er andstæða hennar á allan hátt. Enn þá styttri en Töffarinn, mössuð, þungbrýn og reið á svipinn. Eins konar óskeggjaður Gimli úr Hringadróttinssögu. Ef hún stofnaði til slagsmála við mig myndi ég enda á spítala með brotin bein og brostna sjálfsmynd.

Ég býð þeim romm og Dyravörðurinn tekur aðeins of skýrt fram að hún vilji ekkert bland. Eftir smástund erum við farin að skemmta okkur konunglega. Dyravörðurinn hefur sérstaklega gaman af (ýktum!) lýsingum Töffarans á rjóðu andliti mínu þegar hún labbar um á nærfötunum og hversu augljóst sé að ég vilji sofa hjá henni. Ég játa að svo sé, en tjái áhyggjur af því að það myndi flækja samband þeirra ef eitthvað verður, sem Dyraverðinum finnst fyndið.

Dyravörðurinn leggur til að ég kaupi einkadans af Töffaranum, ég segist ekki hafa efni á því. Það finnst henni líka fyndið. Hún reynir sífellt að fá mig til að fara hjá mér, ekki auðvelt verk.

Þegar klukkan er farin að nálgast miðnætti spyr Töffarinn hvort ég sé ekki þreyttur. Svo er ekki. Þá setur hún handlegginn utan um Dyravörðinn og gælir við hálsinn á henni og spyr mig aftur hvort ég þurfi ekki að gera eitthvað. Þetta gæti verið merki um eitthvað en ég er ekki viss hvað.

Að lokum missir Töffarinn þolinmæðina, sest í kjöltuna á Dyraverðinum og bendir á herbergið mitt. Auðvitað! Þær vilja þær næði!

Ég afsaka mig og segi að langt Youtube-myndband þarfnist athygli minnar. Að sjálfsögðu er það haugalygi, þetta var áður en Youtube leyfði meira en tíu mínútna myndbönd.

Rúmið í herberginu mínu er þægilegt, ofboðslega náði ég að mála vel yfir skærgula litinn sem var á veggjunum. Það þurfti ekki nema átta umferðir. Bækur liggja í hrúgum um öll gólf og á hurðinni er forláta plakat með mynd af Prúðuleikurunum. Það er arfur frá síðasta leigjanda. Ég hef bara ekki í mér að rífa niður Kermit, þótt mér dauðbregði reglulega þegar ég vakna og sé móta fyrir andlitunum í myrkrinu. Glugginn sem veit út í götu er svo lítill að í stað gluggatjalda dugði að hengja upp FH-treyju. Hún skýlir mér fyrir augum fasteignasalans í húsinu á móti, ég bið ekki um meira.

Fljótlega kemur í ljós að veggir íbúðarinnar, sama hversu vel málaðir þeir kunna að vera, eru álíka hljóðeinangrandi og dagblað. Þær vinkonur skemmta sér vel, mjög vel. Ég hækka duglega í uppistandinu og reyni að hugsa ekki um að ég sé að súpa vondan Cuba Libre með George Carlin í stað þess að vera að skemmta mér með vinum. 

Þegar glasið klárast tek ég eftir að frammi er þögn. Líklega er óhætt að álykta að þær séu að kúra og leiðin sé greið á klósettið. Ég geng fram og uppgötva að framvegis verði erfitt að koma mér á óvart.

Töffarinn er í dyragættinni á herberginu sínu, búin að skipta yfir í rauð Victoriu Secret-nærföt og háhæluð leðurstígvél sem ná henni upp að mitti. Hún heldur efst í dyragættina og er að gera upphífingar.

Tæknin er frábær. Hreyfinginn upp og niður er jöfn, engir óþarfa kippir eða sveiflur til að auðvelda verkið. Það er augljóst að hún kann að koma spennu á allt bakið, sem er erfiðara en það virðist. Menn borga fyrir þessa sýningu, eina sem ég tek eftir eru gæði lyftingaformsins.

– SJÁÐU MIG! hrópar hún milli hífinga, kippir sér ekkert upp við að ég standi þarna og stari, kjaftstopp og of hissa til að hugsa eitthvað klúrt. Ég fer bara á klósetið og býð ekki einu sinni góða nótt þegar ég er búinn að bursta tennurnar. Rétt áður en ég steinrotast velti ég fyrir mér hvort þetta furðulega kvöld verði toppað. Þú mátt giska á svarið.

Dyravörðurinn varð samt ekki að einhverri aðalpersónu í lífi okkar. Hún hvarf af sviði jafn skyndilega og hún birtist, þó með meiri látum. 

Þegar ég kem heim úr skólanum, kannski mánuði seinna, tek ég eftir að fyrir utan innganginn á blokkinni er sjúkrabíll. Ég hugsa með mér að kannski sé hann þarna út af annarri íbúð, en það er ekki beint sjokk að sjá íbúðardyrnar.

Inni í stofu standa tveir sjúkraflutningarmenn. Á sófanum er Dyravörðurinn, heldur um höfuðið og veinar af sársauka. Þetta lítur út eins og virkilega slæmt mígreni.  Samt virðast hvorki sjúkraflutningarmennirnir né Töffarinn hafa áhyggjur. Henni virðist þvert á móti leiðast.

Ég set upp svip sem á að segja: Hvað er í gangi?

– Vesen, svarar hún lágt.

Ætli það sé ekki best að skipta sér ekkert af, enda er Oreo-pakki og fyndið myndband búið að panta óskipta athygli mína.

Nokkru seinna spyr ég Töffarann hvað hafi verið að Dyraverðinum. Hún svarar mér flissandi: – Æ, ég reyndi að hætta með henni nokkrum sinnum en hún gerði sér alltaf upp eitthvert kast. Sambandsslitin gengu loksins þegar ég framkvæmdi þau heima hjá henni og gekk burt frá vandamálinu. Þú hittir hana ekki aftur.

Örsögur úr ódýrri íbúð: Vonbrigði

Sambýli er drulluerfitt, sérstaklega þegar þarfir þeirra sem búa saman eru mismunandi, ég tala nú ekki um ef einn íbúanna á það til að vera ögn, bara ögn, tillitslaus. Þegar þú blandar saman Hafnfirðingi, Breta sem hefði átt að fæðast lávarður og strippara er ljóst að einhverjir árekstrar verða. Það var ekki mér að þakka að sambýlið með Lávarðinum og Töffaranum gekk jafn vel og það gerði.

Þegar við Lávarðurinn ákváðum, í fimmta bjór, að leigja saman setti hann ákveðin skilyrði. Við vorum saman í bekk, okkur samdi ágætlega en vorum ekki nánir félagar. Hann vildi að kærastinn hans mætti gista þegar hann vildi, bjóst að því virtist við að það yrði eitthvert mál, sem það var ekki. Annað skilyrði var að þriðja herbergið færi til bestu vinkonu hans, Töffarans.

Ég sagði að það væri sjálfsagt og hann benti mér á að hún ynni fyrir sér sem fatafella. Líklega hefur hann ekki fattað hvers konar ranghugmyndir vöknuðu hjá rúmlega tvítugum strák þegar hann sá fyrir sér að búa með strippara, en meira um hana seinna.

Málið með Lávarðinn er að hann er svolítið spes. Gífurlegur snyrtipinni, sem ég er ekki, svakalega skipulagður, sem ég er ekki, og áhugamaður um að hafa kósý, sem ég er en hann tekur á hærra plan. Á meðan við bjuggum saman sá ég hann aldrei í öðru en slopp heima, nema hann væri á leiðinni út eða inn.

Ég drösla mér á lappir á sunnudagsmorgni og hann er eins og alla daga vaknaður á undan mér. Í eldhúsinu eru svaladyr og þar situr hann, eins og alla morgna, sötrandi fyrsta kaffibolla dagsins með sígarettu í hendi.

Hann lítur út eins og hann ætti að vera á óðali. Fullkomlega afslappaður með yfirlætissvip sem er ekki hægt að kenna. Svip sem segir að hann sé yfir umhverfið hafinn. Svip sem hefði sómt sér á hefðarfólki. Svipurinn á manni sem pantar dýrasta vín hússins og segir að það verði að láta þennan draslárgang duga.

Það er eins og hann dæmi mig á meðan ég treð í mig samloku með sultu og þamba kaffi yfir vaskinum. Mylsnunni úr ögn útrunna brauðinu rignir yfir allt, kaffið er skelfing, bragðið rétt norðan við mótorolíu.

Lávarðurinn er með sjötta skilningarvitið. Það segir honum nákvæmlega hvenær á að bjóða góðan daginn að hans sið.

– Gooooooood morning, cunt.

Bara Bretar geta tekið orðið kunta og gert það heimilislegt. Sama hvað ég reyni finn ég ekkert hnytið tilsvar. 

 – Daginn drusla, svara ég og skammast mín fyrir að vera ekki snjallari. Hann ranghvolfir augunum. Þetta er klárlega fáránlegt svar, hann er sá eini í íbúðinni sem er í löngu og góðu sambandi, við gaur sem er ef eitthvað er enn þá snyrtilegri og skipulagðari en hann.

– Ertu að fara í bolta? spyr hann.

– Að sjálfsögðu.

 Á hverjum sunnudegi hittist hópur stráka úr skólanum og æfir fótbolta. Ég segi æfir, meina hleypur um  og reynir að stemma stigu við sameiginlegri mittisþróun okkar, oftast með smá höfuðverk. Það er takmarkað hversu lengi hægt er að djamma um hverja helgi og líta á örbylgjupizzu sem mat áður en það fer að sjást á þér.

– Ég ætla að þrífa, segir hann.

Það kemur ekki á óvart. Hann er með væga kvíðaröskun og þrifáráttu. Ekki svona „hann er svo ógeðslega snyrtilegur að það er ekki eðlilegt.“  Þetta er meira „hann tekur lyf við þessu og dagurinn gengur stundum út á að halda kvíðanum niðri.“

Reglusemi er eitt helsta vopn hans í baráttunni við taugarnar. Einn fastinn er að þrífa hátt og lágt á hverjum sunnudegi. Hann nær einhverri innri ró við það. Þetta kemur fínt út fyrir mig. Ég vaska upp og er þá búinn að leggja mitt af mörkum fyrir fullkomlega snyrtilega íbúð. Á maður ekki að umgangast fólk sem bætir upp gallana í manni?

Á fótboltavellinum eru aðstæður fullkomnar. Það er hlýtt en nýbúið að rigna þannig að völlurinn er eins og forarpyttur. Í hvert sinn sem við köstum okkur á eftir boltanum eða reynum að tækla menn rennum við í gegnum drullusvaðið eins og tundurskeyti.

Ég er ekki góður í fótbolta. Þegar ég var krakki var ég alltaf settur í markið en í seinni tíð hef ég oftast spilað leiðinlegan varnarmann. Týpan sem á bara að hlaupa eins og óður maður, djöflast í sóknarmönnum og gera sitt allra besta til að skemma fyrir hæfileikaríkari andstæðingum. Þetta er Ingimar: Hans hlutverk í íþróttum er að vera fyrir.

Við þessar aðstæður er ég í essinu mínu, rétt eins og félagarnir. Æfingin er svo skemmtileg að tíminn hverfur og skyndilega eru þrír tímar horfnir og við erum gjörsamlega búnir á því. Því miður þarf að slútta þessu, fara heim og opna einn kaldan og horfa á útsendingu frá leik þar sem enginn leikmanna er þunnur, enginn þeirra er með væga bjórbumbu og alls enginn hefur áhyggjur af skólagjöldum.

Best að reyna að vera góður meðleigjandi og koma inn bakdyramegin. Þetta finnst mér góð hugmynd: Í stað þess að koma inn um aðaldyrnar mun ég fara í gegnum eldhúsið sem lá að svölunum og þar með þyrma anddyrinu við drullunni á mér.

Í gegnum svaladyrnar sé ég Lávarðurinn standa við eldavélina, syngjandi kátan með gott dagsverk. Eldhúsið er eins og það verði notað í auglýsingu fyrir hreinsiefni. Hver einasti flötur gljáir, gólfið er nýbónað og hann er búinn að vaska upp hvern einasta hníf og gaffal. Rúðan á svalahurðinni er eins og ný og þar sé ég spegilmynd mína.

Bolurinn minn var rauður þegar ég fór en er orðinn leðjubrúnn. Það eina sem er drullugra en bolurinn eru skórnir, kálfarnir, stuttbuxurnar, andlitið og hárið.

Þegar við Lávarðurinn byrjuðum að leigja saman lofaði ég að gera mitt besta til að vera snyrtilegur en við værum bara ekki í sömu deild þegar kæmi að þrifum. Ég er á góðum degi um miðja Pepsi-deild, hann keppir í meistaradeildinni í snyrtimennsku. Hann sýnir því skilning, nema þegar hann er nýbúinn að þrífa. Eins og til dæmis núna.

Ég banka og brosi til hans, hann snýr sér við og sér einhverja kuntu vera um það bil að ganga inn í gljáandi eldhúsið, drullugri en meðal mýrarboltakeppandi. Ég sé blóðþrýstinginn bruna yfir hættumörk á því hvernig æðar verða skyndilega sýnilegar á enninu, varirnar þrýstast saman og hnúarnir hvítna af spennu. Hann er mögulega ekki sáttur. Ætli það sé mér að kenna?

 Hann opnar fyrir mér en meinar mér að komast inn. Milli samanbitinna tanna hvæsir hann:

– Ingimar. Hvað. ER. AÐ. ÞÉR?!

 Ég reyni að halda niðri í mér hlátrinum og svara:

– Sorry með mig. Má ég komast í sturtu?

– NEI! ÚR FÖTUNUM ÞÚ FERÐ EKKI HÉRNA INN SVONA!

Ég bið hann að sækja fyrir mig föt til skiptanna og hann þverneitar. Það er enginn nágranni sjáanlegur svo flíkurnar fljúga af mér og beint ofan í svartan ruslapoka sem Lávarðurinn töfrar fram. Hann ætlar að henda þeim en ég stoppa það, þær þurfa bara þrjár umferðir í þvottavél til að vera jafn fínar og eldhúsið. Þegar ég rölti í gegnum íbúðina og inn á bað eltir hann mig með sópinn á lofti, blótar litríkt og yrðir svo ekki á mig það sem eftir lifir dags.

Örsögur úr ódýrri íbúð – Bæjardjamm (og kynning)

Ég ætla að birta hér á síðunni næstu vikur smásögurnar Örsögur úr ódýrri íbúð. Þetta var lokaverkefnið mitt í ritlistinni og ég hef viljað gera eitthvað með þær síðan ég skrifaði þær en ekki fundið rétta vettfanginn.

Markmiðið með þessum sögum er fyrst og fremst að fá ykkur til að hlægja, allir viðburðir sem sagt er frá gerðust en nöfnum hefur verið breytt og persónur sameinaðar til að virða friðhelgi fólks, sem er í flestum tilfellum vinir mínir. Skemmtið ykkur vel:

Bæjardjamm

Það er er ekki daglegt brauð að djamma í miðborg London en þegar það gerist er það hrikalega skemmtilegt. Það er eitthvað við að vera í hjarta stórborgarinnar sem kemur manni í gírinn, svo ekki talað um bjóranna þónokkuð mörgu sem við erum þegar búin að þamba. Við erum einhverstaðar rétt fyrir norðan ánna Thames, sviplíkar göturnar liggja í allar áttir og auðvelt að villast. Á göngu hér finnst alltaf eitthvað töff, hvort sem það er ævaforn stytta eða nýopnaður bar. Eins og þessi bar, sem virðist vera fullkomnunin uppmáluð.

Við erum nýbyrjuð saman í leiklistarskóla, framundan eru þrjú ár af nánu samstarfi, ævintýrum og skemmtilegum kvöldum. Hópurinn er fjölbreyttur, þverskurður af leikhúsáhugamönnum Bretlandseyja og svo ég, einn fjölda Íslendinga sem lærir leiklist í skólanum Rose Bruford. Þetta er í fyrsta skipti sem hópurinn fer saman á djammið og þau sem eru frá London vilja ólm sýna okkur hinum höfuðborgina. Ekkert þeirra hafði heyrt um þennan bar fyrir þetta kvöld en þau vissu á hvaða svæði væri gott að ráfa.

Dyraverðirnir eru vinalegir, sem er jafn sjaldgæft hér og heima. Þeir hleypa okkur inn með bros á vör, brosið er svo óvænt að það er óþægilegt. Nýju vinir mínir stefna út í horn að lausu borði en ég tek eftir lausum barþjóni. Best að grípa gæsina.

Því miður fengu fjórtán aðrir sömu hugmynd og ég enda aftast í langri röð hjá grey þjóninum. Hann er hvorki að farast úr þjónustulund né skilvirkni. Á andlitinu er svipur sem bara barþjónar mega fá að nota þjónustustörfum, svipurinn sem segir að hann vilji gera hvað sem er nema að afgreiða þig.

Hvergi í heiminum líður tíminn jafn hægt og aftast í röð við bar, nema kannski á biðstofu kynsjúkdómalæknis. Ég tala nú ekki um þegar þig langar bara í einn helvítis bjór. Þá er lögmálið að allir á undan þér panti flókna drykki sem þarf að blanda frá grunni, fara með forna töfraþulu, bíða eftir að hvert hráefni fái að anda í þrjátíu og átta sekúndur og svo að lokum þarf að hræra nákvæmlega tólf sinnum, réttsælis.

Af hverju er aldrei sér röð fyrir þá sem vilja bara einn bjór?

Þegar röðin er loksins komin að mér er ég rúmlega árinu eldri, komin með grá hár og þarf að raka mig. Ég panta bjór og er spurður um skilríki. Það pirrar mig. Drykkjualdurinn hér er átján og fólk er venjulega komið í síder við fermingu. Ég rétti samt fram ökuskírteinið mitt með bros á vör, ef ég er heppinn mun barþjóninum finnast kúl að ég sé Íslendingur. En hann lætur ekki þannig smáatriði gleðja sig, tilkynnir að það þurfi bresk skilríki til að panta við barinn og snýr sér að þeim næsta í röðinni.

Hægt er að bregðast við svona á ýmsan hátt. Þú getur brosað og reynt að sannfæra barþjóninn um að líta framhjá reglunum. Þú getur farið til vina þinna og beðið þau um að kaupa bjór fyrir þig. Þú getur jafnvel áttað þig á að þú sért búinn með fleiri drykki en er skynsamlegt og hætt að drekka þessa nótt. Eða þú getur baðað þig í réttsýnni reiði, blótað barþjóninum, gleymt því að vinir þínir séu á staðnum og strunsað á dyr. Ég vel síðastnefnda kostinn.

Ég geng út. Það er heimskuleg ákvörðun.

Síminn minn er dauður þannig að ég get ekki látið vini mína vita að ég sé farinn. Til að bæta gráu ofan á svart hleypir barinn fólki ekki inn tvisvar sama kvöld, væntanlega til að koma í veg fyrir að nískupúkar laumist út á milli dansspora og helli í sig víni úr næsta stórmarkaði. Það sem verra er, það eru nokkrir útgangar á staðnum. EF ég bíð við aðaldyrnar eru fínustu líkur á að vinirnir fari út annars staðar.

Svo er það ein óþægileg staðreynd, sem ég hefði kannski átt að pæla í fyrir eins og einu reiðiskasti. Ég er í borgarhluta sem ég þekki ekki, fjarri nýju heimili mínu í hverfinu Sidcup og já alveg rétt, það er ekkert reiðufé í veskinu. Leigubílastjórar í London hafa engan áhuga á veseni eins og að taka við korti og ég hef ekki hugmynd um hvar hraðbanka er að finna.

Þegar ég pæli í því, þá veit ég ekki heldur hvar næsta leigubílastöð er.

Það hlýtur að vera einhver lausn. Næturstrætó, besti vinur djammara í London, er möguleiki. Því miður er ég svo nýfluttur til borgarinnar að ég veit ekki hvaða stoppistöðvar eru nálægt heimili mínu. Svo ekki sé talað um hvaðan vagnarnir fara.

Næsti augljósi kostur eru lestirnar en þær byrja ekki að ganga fyrr en eftir nokkra klukkutíma. Þar að auki þyrfti ég að finna lestarstöð. Þar gæti ég beðið fram á morgun, tekið fyrstu lest á London Bridge stöðina og komið mér heim þaðan. En eftir sólsetur eru stöðvarnar morandi í heimilislausu fólki, mig vantar aðeins upp á hugrekkið til að kynnast þeim betur.

Hvað með að finna stelpu til að heilla upp úr skónum? Nýta ljósa hárið og ýktan íslenskan hreim sem ég  er bara með í glasi. Ná að breyta mér í draumaprins. Sú tilhugsun hljómar vel í næstum því sekúndu, áður en ég man að drukkinn maður úti á götu í miðborg London er engrar konu draumaprins.

Hvar í andskotanum er ég annars? Það væri fínt að fá það á hreint. Þetta er þröng gata, húsin í kring eldgömul og öll ljós slökkt. Ekkert af þessu segir mér neitt, þetta á við annað hvert hverfi borgarinnar. Það er smá þoka, engin kennileiti sýnileg. Gatan liggur niður brekku. Brekkur í London hljóta að liggja nokkurn veginn að Thames-ánni. Er ekki áin neðsti punkturinn í borginni? Jú, vatn leitar alltaf niður. Einhvers staðar við hana er lestarstöðin London Bridge. Hugmynd er að mótast og mér líst allavega ekki illa á hana.

Allar lestir til Sidcup fara í gegnum London Bridge, ég hef allavega áttað mig á því á stuttum tíma í borginni. Hjá London Bridge get ég kannski fundið lestarteinana sem liggja til Sidcup, heimilis míns næstu ár. Þetta yrði löng ganga en líklega ekki mikið lengri en úr 101 í Hafnarfjörð. Fyrsta skrefið er að finna stærstu á Englands. Við fórum ekki svo langt norður fyrir hana þegar við mættum á djammið, hún er hérna einhvers staðar. Þetta er hægt og hey, fokk it þetta verður fyndin saga á morgun.

Ferðin hefst. Það væri snilld að finna lestarstöð, þar eru alltaf kort. Ef slíkt finnst ekki væri næstbesti kostur kunnugleg bygging sem hægt væri að nýta sem vegvísi. Í hliðargötu blasir við minnisvarði um konung í fjarlægu landi, sem réð ríkjum nokkur þúsund árum áður en einhverjum datt í hug að það væri góð hugmynd að búa á Íslandi. Styttan er vissulega kennileiti en maður þarf víst að vita hverju það er nálægt til að það vísi til vegar, sem ég geri ekki.

Öll þessi hugsun tekur á og það virðist ekki vera að renna af mér. Eftir dágóðan spöl spyr kuldinn hvort ég ætli að taka eftir honum og hrollur fer um mig. Nei, ég er Íslendingur, okkur á ekki að verða kalt erlendis. Sú hugsun hjálpar ekki.

Skrefin þyngjast. Engin lestarstöð er sjáanleg, ekkert bólar á kennileiti og mögulega er þetta ekki góð hugmynd. Ég hélt ég væri rétt hjá Thames en það virðist ekkert bóla á ánni. Geta ár horfið?

Þá sé ég leigubíll og breyti planinu í flýti. Ég ríf upp farþegahurðina og útskýri að ég sé ekki með pening á mér en geti farið í hraðbanka í Sidcup. Sú staðreynd að ég er tilbúinn að borga háa upphæð, líklega meira en tíu þúsund, fyrir leigubíl segir eitthvað um hversu örvæntingafullur ég er og sú staðreynd að leigubílstjórinn segir mér að fara í rassgat segir mér að þetta sé líklega ekki leigubíll.

Ég biðst afsökunar, loka dyrunum varlega og held áfram að ganga.

Þetta er klemma, jafnvel mikil klemma. Ég er orðinn drullusyfjaður, mér er illt löppunum og kuldinn minnir mig sífellt á að það sé ekki hægt að hundsa hann að eilífu. Ef ég sé lestarstöð mun ég stoppa þar og gista, það hlýtur að vera öruggara en að sofna úti á götu. Hvað með þá heimililausu? Eitt í einu, finn út úr því þegar að því kemur.

Ég kem auga á annan leigubíl og vonarglæta blossar upp. Það sem meira er, hann stendur við leigubílastöð. Hann er líklega ekki saklaus borgari á næturrúnti. Í þetta sinn geng ég rólega að bílnum og banka. Ég segist hafa misreiknað eyðslu kvöldsins og geti ekki borgað nema hann stoppi við hraðbanka. Bílstjórinn er hress, miðaldra Írani og sem brosir sínu breiðasta og býður mér inn. Miðstöðinn er stillt í botn, hitinn smýgur inn í mig allan, himneskt.

Hann spyr mig út í nóttina, ég útskýri í grófum dráttum hvað hafi gerst og hann hlær að mér. Ég segist vera Íslendingur, það eina íslenska sem hann þekkir er Jón Páll og Magnús Ver. Við eyðum klukkutíma langri bílferðinni til Sidcup í að ræða muninn á írönskum og íslenskum kraftlyftingamönnum og skemmtum okkur konunglega.

Við stoppum, ég stekk út og geng að hraðbankanum. Hann virðist bilaður. Annaðhvort það eða ég man ekki hvernig hraðbankar virka, sem gæti tengst ástandinu á mér. Miðað við ákvarðanatökuna hingað til er það sterkur möguleiki. Ætti ég að hlaupa inn í garðinn og treysta á það að vera sneggri en miðaldra Írani? Nei, það væri ljótt, betra að reyna að útskýra málið. 

Höfuðverkur vekur mig morguninn eftir. Hvað gerðist í nótt? Ekki man ég rétt, það getur ekki verið að ég hafi gengið heim? Í dagsbirtunni hljómar það frekar heimskulega. Nei, það var leigubíll en hvernig borgaði ég?

Það er engu líkara en Íraninn hafi skynjað að ég væri að vakna því síminn hringir einmitt þegar ég neyði mig til að opna augun. Hann spyr mig í gegnum tólið hvort ég muni eftir honum, sem ég játa. Hann segist vera á leiðinni til Sidcup til að sækja peninginn. Hvernig komst ég heim ef ég borgaði ekki?

Ég rölti að hraðbankanum og tek út pening. Fyrir kraftaverk virkar hann nú þegar runnið er af mér. Þegar ég hef borgað bílstjóranum spyr hann hvort ég vilji ekki trygginguna. Best að minnast ekkert á að ég muni ekki eftir að hafa afhent slíkt. Hann réttir mér helvítis ökuskírteinið og kveður. Sólin skín, ég reikna út að líklega hefði göngutúrinn verið svipaður og úr Hafnarfirði að Esjunni. En innan um forljót húsin í Sidcup líður mér eins og ég sé kominn heim.